brugðið á leik ... fjölskyldublogg

brugðið á leik ... er blogg um prjón, handavinnu og aðra hönnun sem gleður augað og nærir sálina.

Monday, March 21, 2011

Túrkis kjóllinn hennar Hörpu Hua Zi

Þetta er Túrkis kjóllinn hennar Hörpu Hua Zi sem ég kláraði í gær 20. mars.
Ég fann gamlan lit af plötulopa þegar ég var í bústaðnum hennar mömmu 
um síðustu helgi og datt í hug að blanda honum við dekkri lit af einbandi !
Eins og fyrri daginn þá er þetta prjónað af fingrum fram - engin uppskrift en ég skrifaði niður það sem ég gerði þannig að það væri hægt að setja þetta upp í uppskrift, kannski geri ég það seinna og set á Ravelry ?
Það þarf ekki nema 1 plötulopa og 2 dokkur af einbandi í kjólinn.

Harpa fór í kjólnum í leikskólann í dag og var alsæl með hann :-)





Wednesday, March 16, 2011

Mix Max - kjóllinn

Þetta er þróunarsaga Mix Max kjólsins: 

Ég hafði dottið niður á prjónahönnun Rodarte systranna og það varð þvílík innspýting fyrir mig
þannig að rétt eftir áramótin 2010/11 byrjaði ég í tilraunastarfssemi.

Mér finnst svo gaman að kaupa eina og eina dokku af garni og veit svo ekkert 
hvað ég á að gera við það þannig að mér fannst tilvalið að nýta það í svona verkefni.
Ég byrjaði fyrst að nota hærusvartan léttlopa með skærum litum 
eins og sést á fyrstu myndinni, en hætti svo við það afþví mér fannst það of miklir kontrastar.

Þannig byrjaði ég uppá nýtt og í þetta sinn með dökk mórauðan lit í léttlopa.
Lét svo bara stemningu ráða því hvaða garn og lit ég valdi næst :-)
Notaði margar stærðir af prjónum og prjónaði mislangt fram og tilbaka 
einnig sló ég stundum uppá til að gera götin stærri.
Mest notaði ég léttlopann með einbandi en fannst líka fallegt að setja angóru og móhair.
Það hefði verið algjör geggjun að ganga frá endum þannig að ég prjónaði bara alla enda saman.

Erfiðast var að vita ekki hvort ég væri komin með jafnt að framan og aftan 
því það er auðvitað vonlaust að telja umferðir í svona flík. 
Þannig brá ég á það ráð að láta kjólinn hanga til þess að sjá hvort hann væri missíður 
og gat þá bætt við umferðum þar sem vantaði á. 

Það sem kom mér á óvart var hversu hlýr hann er með öllum þessum götum 
ég þarf ekki að fara í annað en léttan hlýrakjól undir hann.
Hann er einstaklega þægilegur og léttur auðvitað ! 

Stundum set ég belti en það þarf ekkert endilega.
Mér hefur þótt gaman hversu góð viðbrögð ég hef fengið á kjólinn
á Facebook, Ravelry og svo auðvitað þegar ég hef mætt í honum í vinnuna.
Kannski geri ég eitthvað meira í þessum dúr seinna ?









Besti orkudrykkurinn !

Þetta er nýjasta æðið á heimilinu !
Sítrónusafi + epli + pera + spínat + fersk myntulauf + klaki = himnesk sæla

Tuesday, March 15, 2011

Ermar - kláraðar í bústaðnum hennar mömmu 14. mars 2011


Ég prjónaði þessar ermar úr túrkis einbandi með bláu mohair. Hef alltaf sama lykkjufjölda 
en breyti um prjónastærð.
Prjónamynstur er Daisy Stitch sem kemur sérstaklega vel út !
Tek upp lykkjurnar ca. í annarri hverri umferð og prjóna út kraga að ofan með 2 sl. og 3 br. en að neðanverðu er 1 sl. og 1 br. Reyndar er hægt að snúa þessu við eins og sést á neðstu myndinni.
Skrifaði hjá mér uppskrift og set hana kannski á Ravelry !

Thursday, March 10, 2011

Tattoo

Er ekkert sérstaklega hrifin af tattói en þegar ég sá þessa mynd fór ég í fyrsta sinn að hugsa um hvernig væri nú að vera með svona tattú ?
Það væri ansi þægilegt að hafa málbandið alltaf við hendina ;-)
Hætti svo við þessar pælingar því að nákvæmnin í centimetrunum gæti breyst eftir aldri og holdafari !

Prjónað með aðstoð Ipad !


Verð að viðurkenna að löngunin í Ipad vex stöðugt ! 
Er farin að finna svo MARGA möguleika til að nýta hann ...
t.d. getur hann verið mikil hjálp fyrir sjóndapra þegar farið er eftir prjónauppskriftum.
Skiptir auðvitað miklu máli fyrir gleraugnaglám með tvískipt gleraugu eins og mig !
Er það ekki ????

Puttaprjón



Mamma sendi mér þessar myndir af hálsmenum sem gerðar voru með puttaprjóni og svo þæft á eftir.
Sniðugt að nota restar í svona ;-)
Enn ein sniðug aðferðin ;-)

Monday, March 7, 2011

Ermar - helgina 5-6. mars 2011

Vissi loksins hvernig ég ætti að nýta mér fallegu Daisy Stitch prjónaaðferðina.
Ákvað að prjóna ermar sem gætu nýst mér við prjóna skokkana mína.
Blandaði bláu mohair garni með túrkis einbandi.
Prjónar nr. 9
Veit ekki alveg hvernig ég vil hafa þær en finnst gaman að velta því fyrir mér hvað 
verður næsta skref á meðan ég er að prjóna.
Líklega mun ég taka upp lykkjur og prjóna kraga !

Friday, March 4, 2011

Vestið mitt tilbúið


Hnausþykkt vesti sem verður ágætt til að leggjast undir feld í !
Prjónað úr lopa og léttlopa auk þess er skrautgarn með Lurex í stóru samhverfu köðlunum.
Varð svolítið þreytt að prjóna með prjónum númer 15 og reyndi því að prjóna laust.